Atlantshaf er annað stærsta úthaf heims á eftir Kyrrahafinu og skiptist í tvennt við miðbaug: Norður- og Suður-Atlantshaf. Það þekur um fimmtung jarðar og skilur að meginlöndin Evrópu og Afríku í austri og Norður- og Suður-Ameríku í vestri. Í austri mætir Atlantshafið Indlandshafi við 20. lengdargráðu austur. Hafið tengist einnig Kyrrahafinu um Norður-Íshaf í norðri og Drakesund í suðri.
Elsta heimild um nafnið Atlantshaf eru Sögur Heródótosar frá því um 450 f.Kr. þar sem talað er um Ἀτλαντὶς θάλασσα (Atlantis þalassa) eða „haf Atlass“, sem vísar annað hvort til títansins Atlass eða Atlasfjalla sem draga nafn sitt af honum. Suður-Atlantshaf hefur verið kallað Eþíópíuhaf (dregið af nafni Eþíópíu) allt fram á miðja 19. öld[1]. Áður en Evrópubúar kynntust öðrum úthöfum jarðarinnar var orðið „úthaf“ einfaldlega notað um hafið handan við Gíbraltarsund. Forn-Grikkir töldu þetta haf vera stórfljót sem rynni umhverfis heiminn.
Atlantshafið liggur í S-laga sveig milli meginlandanna Evrasíu og Afríku í austri og Ameríku í vestri. Það er hluti af einu samtengdu heimshafi ásamt hinum úthöfunum. Það skiptist við miðbaug í Norður-Atlantshaf og Suður-Atlantshaf.