Bretapopp | |
---|---|
Uppruni | byrjun tíunda áratugarins í Bretlandi |
Hljóðfæri | gítar, bassi og trommur |
Vinsældir | miðbik tíunda áratugarins |
Bretapopp (enska: britpop) er undirflokkur öðruvísi rokksins og kemur eins og nafnið gefur til kynna frá Bretlandi, nánar tiltekið bresku indie-senunni sem á rætur sínar að rekja til fyrstu ára tíunda áratugs seinustu aldar. Bretapoppið er tónlistarstefna sem er einskorðuð við breskar hljómsveitir. Bretapoppið var undir hvað mestum áhrifum tónlistar sjöunda og áttunda áratugarins. Það einkenndist af grípandi lögum og melódískum gítarriffum sem minntu á áðurnefnda áratugi. Bretapoppararnir voru með nýja og ferska tónlist síns tíma og hljómuðu eins og nokkurs konar soundtrack sinnar kynslóðar; það er bresks ungdóms og voru með nokkurs konar andsvar gegn helstu stefnum tímans sérstaklega í Bandaríkjunum og þá allra helst grungeinu. Bretapoppið öðlaðist gífurlega vinsældir á árunum 1994 til 1996 en dvínaði eftir árið 1998. Það lifði stutt og hefur oft verið gagnrýnt fyrir skort á nýsköpun og að beina tónlist sinni til of lítils markhóps en stefnan einskorðaðist að miklu leyti bara við Bretland en þrátt fyrir það að vera sjálft ekki langlíf stefna þá hafði bretapoppið áhrif á aðrar stefnur og færði mikið af bresku alt-rokki meira fram í sjónarsviðið og ýtti undir þróun Cool Britannia stefnunnar.