Heimspeki 18. aldar, einnig nefnd heimspeki upplýsingarinnar eða heimspeki upplýsingartímans, er tímabil í sögu vestrænnar nýaldarheimspeki, einkum evrópskrar heimspeki. Stundum er 17. öldin einnig talin heyra til heimspeki upplýsingarinnar.
Á 18. öld ríkti mikil bjartsýni meðal heimspekinga og vísindamanna um getu vísindanna til þess að útskýra þau lögmál sem giltu um heiminn og um almennar framfarir. Þessi framfaratrú var einn þáttur í þeirri hugmyndafræði sem gat af sér frelsisstríð Bandaríkjanna og frönsku byltinguna og síðar sjálfstæðisbaráttu suður-amerískra ríkja. Hún gat einnig af sér klassíska frjálshyggju, lýðræði og auðvaldshyggju.