Heimspeki 20. aldar einkenndist af klofningi heimspekinnar í rökgreiningarheimspeki og svonefnda meginlandsheimspeki en hvor tveggja á rætur sínar að rekja til ákveðinnar þróunar í heimspeki seint á 19. öld.
Meginlandsheimspekin sótti einkum innblástur sinn til þýsku hughyggjunnar og til hugsuða á borð við Sören Kierkegaard (1813 – 1855), Friedrich Nietzsche (1844 – 1900), Franz Brentano (1838 – 1917) og Edmund Husserl (1859 – 1938). Hún blómstraði í fyrstu einkum á meginlandi Evrópu og hlaut þaðan nafnið.
Rökgreiningarhefðin spratt upp úr tilraunum heimspekinga til að finna traustari grunn fyrir rökfræðina og til að smætta alla stærðfræði í rökfræði sem og frá áhuga þeirra á máli og merkingu. Rökgreiningarheimspekingar sóttu sumir innblástur sinn í enska raunhyggjuhefð, meðal annars til Davids Hume (1711 – 1776) og Johns Stuarts Mill (1806 – 1873), enda þótt mikilvægir hugsuðir rökgreiningarhefðarinnar kæmu frá meginlandi Evrópu.