Sambandslýðstjórnarlýðveldið Nepal | |
संघीय लोकतान्त्रिक गणतन्त्र नेपाल Sanghiya Loktāntrik Ganatantra Nepāl | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: जननी जन्मभूमिश्च स्वर्गादपि गरीयसी (sanskrít) Móðir og móðurland er meira virði en himnarnir | |
Þjóðsöngur: Sayaun Thunga Phool Ka | |
Höfuðborg | Katmandú |
Opinbert tungumál | nepalska |
Stjórnarfar | Sambandslýðveldi
|
Forseti | Ram Chandra Poudel |
Forsætisráðherra | KP Sharma Oli |
Sjálfstæði | |
• Stofnun konungsríkis | 21. desember 1768 |
• Stofnun lýðveldis | 29. maí 2008 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
93. sæti 147.181 km² 2,8 |
Mannfjöldi • Samtals (2012) • Þéttleiki byggðar |
40. sæti 26.494.504 180/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2018 |
• Samtals | 84 millj. dala (90. sæti) |
• Á mann | 2.842 dalir (155. sæti) |
VÞL (2021) | 0.602 (143. sæti) |
Gjaldmiðill | Nepölsk rúpía (NPR) |
Tímabelti | UTC+5:45 |
Þjóðarlén | .np |
Landsnúmer | +977 |
Nepal (nepalska: नेपाल Nepāl), opinberlega Sambandslýðstjórnarlýðveldið Nepal (nepalska: सङ्घीय लोकतान्त्रिक गणतन्त्र नेपाल Saṅghīya Lokatāntrik Gaṇatantra Nepāl), er landlukt land í Suður-Asíu. Stærstur hluti landsins er í Himalajafjöllum en það nær líka yfir hluta Indus-Ganga-sléttunnar. Landið á landamæri að Kína (Tíbet) í norðri og Indlandi í suðri, austri og vestri. Aðeins 27 km ræma skilur milli suðausturodda landsins og Bangladess. Í austri skilur indverska fylkið Sikkim milli þess og Bútans. Landslag í Nepal er fjölbreytt og nær frá frjósömum sléttum, yfir gróðurvaxnar hæðir að snævi þöktum fjöllum. Suðurhluti Nepals er frjósamur til ræktunar og þar er mjög þéttbýlt. Mikið rignir í Nepal, sérstaklega þegar monsúnrigningarnar skella á Himalajafjöllunum. Átta af tíu hæstu tindum heims eru í Nepal. Þar á meðal er hæsta fjall heims, Everestfjall. Nepal er 147.181 ferkílómetrar að stærð og fólksfjöldi þar er um 30 milljónir. Meirihluti íbúa Nepal eru hindúar en sögulega er landið tengt búddisma. Höfuðborgin og stærsta borg landsins heitir Katmandú. Nepal er fjölmenningarríki. Nepalska er opinbert tungumál landsins en innan við helmingur íbúa á nepölsku að móðurmáli.
Heitið Nepal kemur fyrst fyrir í ritum frá Vedatímabilinu þegar hindúatrú, ríkjandi trúarbrögð landsins, varð til á Indlandsskaga. Um mitt 1. árþúsundið f.Kr. fæddist Gautama Búdda, stofnandi búddisma, í Lumbini í suðurhluta Nepals. Hlutar af Norður-Nepal hafa verið nátengdir sögu og menningu Tíbets. Katmandúdalur í miðju landsins tengist menningu Indóaría og var miðstöð hins öfluga sambandsríkis Newara sem er kallað Nepalmandalan. Farandkaupmenn frá dalnum sem ferðuðust milli Katmandú og Tíbet stýrðu verslun um þá grein Silkivegarins sem lá um Himalajafjöll. Þar þróaðist sérstök myndlist og byggingarlist. Um miðja 18. öld lagði Prithvi Narayan Shah, konungur Gorkaríkisins, Nepal undir sig og sameinaði landið undir sinni stjórn. Eftir Stríð Bretlands og Nepals 1814-16 gerðu ríkin með sér Sugauli-samninginn þar sem Bretar fengu nokkur landsvæði sem Nepalir höfðu nýlega lagt undir sig á Indlandsskaga og leyfi til að ráða nepalska Gúrka í her sinn. Um miðja 19. öld varð Rana-ætt einráð í ríkinu í gegnum embætti forsætisráðherra en konungurinn varð leppkonungur. Landið varð aldrei nýlenda en hélt fast við bandalag sitt við breska heimsveldið. Alræði Rana-ættar lauk 1951 þegar Tribhuvan konungur náði að hrekja forsætisráðherrann frá völdum með aðstoð nepalska kongressflokksins. Takmörkuðu lýðræði var komið á en konungur leysti þingið tvisvar upp, 1960 og 2005. Um miðjan 10. áratuginn hófst Borgarastyrjöldin í Nepal þegar kommúnistaflokkur Nepals hóf vopnaða baráttu gegn konungsveldinu. Borgarastyrjöldinni lauk 2008 þegar þetta síðasta konungsríki hindúa var lagt niður og landinu var breytt í lýðveldi.
Stjórnarskrá Nepals frá 2015 skilgreinir landið sem veraldlegt sambandslýðveldi með þingræði. Landið skiptist í sjö fylki. Nepal gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1955. Landið gerði vináttusamninga við Indland 1950 og Alþýðulýðveldið Kína 1960. Samstarfsráð Suður-Asíu er með höfuðstöðvar í Katmandú. Það er líka aðili að Samtökum hlutlausra ríkja og BIMSTEC, efnahagssamstarfi ríkja við Bengalflóa. Nepalsher er sá fimmti stærsti í Suður-Asíu. Hann er aðallega þekktur fyrir sögu Gúrkaherdeilda sem börðust í báðum heimsstyrjöldum og hafa tekið þátt í friðargæsluverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.