Tilvist

Tilvist er það sem fullyrt er með sögninni „að vera til“. Sögnin er málfræðileg umsögn en heimspekingar hafa lengi deilt um hvort hún er einnig rökfræðileg umsögn.

Sumir heimspekingar hafa haldið því fram að sögnin eigni frumlaginu eitthvað sem kallast „tilvist“, þannig að í setningunni „fjögurra laufa smári er til“ eigni umsögnin fjörurra laufa smára tilvist. Þess ber að gæta að hér er ekki verið að eigna frumlaginu eiginleika en flestir heimspekingar eftir Immanuel Kant hafa fallist á að tilvist sé ekki eiginleiki.

Aðrir heimspekingar hafna því að tilvist sé rökfræðileg umsögn. Þeir halda því fram að tilvist sé einungis það sem sögnin „að vera til“ fullyrðir en að allar staðhæfingar sem innihalda umsögnina sé hægt að umorða þannig að þær innihaldi ekki umsögnina. Til dæmis gæti setningin „fjögurra laufa smári er til“ verið rökgreind í staðhæfinguna „sumir smárar hafa fjögur lauf“ þar sem sögnin „hafa“ eignar sumum smárum þann eiginleika að hafa fjögur lauf. Þess ber að gæta að með því er ekki sagt að sögnin „að vera til“ eigni hlutum þann eiginleika að vera til, heldur einhvern annan eiginleika, í þessu tilviki að hafa fjögur lauf.

Spurningin um hvers eðlis tilvist er er gömul í heimspeki og margir heimspekingar hafa glímt við hana, frá Herakleitosi, Parmenídesi, Platoni, Aristótelesi og Plótínosi, til Avicenna, Tómasar frá Aquino, Scotuss, Davids Hume, Immanuels Kant til Bertrands Russell, Willards van Orman Quine, Sauls Kripke og margra annarra.


Developed by StudentB