Máltími[1] (einnig UTC eða samræmdur alþjóðlegur tími) er tímakvarði sem er eins og GMT að öðru leyti en því að UTC byggir á tímamælingu með atómklukku, þar sem GMT á hinn bóginn reiknar tímann með stjarnfræðilegum hætti. Þegar nauðsyn krefur er skotið inn aukasekúndu(m) í lok mánaðar og verður klukkan þá 23:59:60 (og áfram ef þörf krefur) áður en hún verður 00:00:00. Slíkri aukasekúndu var síðast bætt inn 30. júní 2012. Þessi leiðrétting stafar af því að snúningur jarðar verður í sífellu hægari og lengjast því GMT-sekúndur stöðugt, en atómklukkusekúndur eru óbreytilegar. Skammstöfunin UTC er alþjóðleg og var hugsuð sem málamiðlun á milli frönsku (Temps universel coordonné, TUC) og ensku (Coordinated Universal Time, CUT).
Tímabelti jarðar eru skilgreind sem jákvæð (austur) og neikvæð (vestur) hliðrun frá UTC.